Rigning og rok upp í kok...
19.12.2007 | 12:50
Nei, nei þetta er bara hressandi eftir blíðuna í london. Ég rölti um miðbæinn með Hrefnu vinkonu minni í gær og mundi þá að það er margt sem ég hef ekki sagt ykkur frá. Til dæmis eftirbrennslu annirinar. Þannig er þetta nefnilega í ASAD, að eftir önnina er sest niður og hver og einn fær að segja sitt. Áður höfum við öll skilað skýrslu um hvern og einn kennara. Ég sagði bara nákvæmlega það sem eg hef sagt hér á bloginu, þó ég orðaði það öðru vísi. Svona til að reyna að vera almennilegur. En endaði á því að eftirbrenna sjálfan mig. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég hef verið efnilegur í annsi mörg ár. Sýnt merki um að með þjálfun og ástundun gæti ég orðið nokkuð góður í þessu eða hinu. Þetta hefur alltaf hrætt mig, hvað ef ég er bara efnilegur, ef ég verð ekkert betri en ég er nú þegar? Og til að þurfa ekki að svara þessum spurningum hef ég snúið mér að einhverju öðru. Oftar en ekki er ástæðan fyrir brotthvarfi mínu allt mögulegt og ómögulegt annað en ég. Heimurinn allur er á móti mér! Grenj grenj... Ómeðvitað var ég alltaf að leita að ástæðu til að hætta, koma heim og segja: Jæja, ég reyndi en þetta var bara svo skrítinn skóli. En ég ætla ekkert að hætta, ég ætla að klára og útskrifast með stæl. Fyrir mig og verða eins góður listamaður og ég frekast get orðið. Og hana nú og helvíti. Skólastjórinn sagði að þetta væri besta eftirbrennsla fyrsta árs nema sem hann hafði heyrt, það væri ekkert sem hann vildi bæta við. Nema að ég mæti neita leikstjórum um að vera í verkunum þeirra. Algjör óþarfi að þræla sér algjörlega út, og hann hlakkaði til að vinna með mér í framtíðinni. Ég hefði unnið vel þessa önn og hann bað mig um að gefast ekki upp á skólanum. Þetta væri einn besti leiklistar skóli í heiminum, það kenndi enginn það sem þau kenndu. Ef það er eitthvað sem þú þarft að ræða, þá skrifstofan alltaf opinn.
Ókei, ég hélt að ég væri eins og rjúpan að rembast við staurinn, og engin tæki eftir því sem ég væri að gera. En heldur betur ekki. Ég get núna hætt að vera alltaf að sanna mig, og núna get ég farið að slappa af í hausnum á mér. Hætt að pirra mig á samnemendum mínu og farið að læra eins og maður.
Ég fór í kveðju partí hjá MIKA, nei ekki þeim Mika heldur Mika samleiganda Chris (Hún er pólsk stelpa ekki Chris heldur Mika). Chris er sá sem ég ætla að leiga hjá. Við Chris komum beint af lokasýningu í standandi breskt partí. Allir voða hressir, ég komst að því að það merkilegasta við mig er að ég er íslenskur og ég er óperusöngvari. Ég er reyndar ekki óperusöngvari, en hvað með það. Þarna var ungur vel skapaður drengur sem gat sleikt á sér olnbogann. Frekar spes. Hann gat líka gert einhverja svona yoga jafnvægisæfingu. Halló, halló sagði einhver yoga? Þarna var minn maður á heimavelli. Ég skoraði þann vel skapaða á hólm, og yoga einvígið hófst. Fyrst varð ég að endurtaka æfinguna sem hann hafði gert. En þá var komið að mér. Ég skellti mér í herðastand, setti fæturna í lotus-stöðu og beygði þær yfir höfuðið alveg niður á gólf. Ta tamm! Ég vann, hann gat ekki einu sinni jafnað metin. Daginn eftir þakkaði Chris mér fyrir að lækka rostann í þeim kokhrausta, því venjulega hættir hann ekki að sýna listir sínar. En þetta kvöld gátu allir bretarnir drukkið í friði fyrir yoga-fríkinu. Þökk sé íslenska óperusöngvaranum. Það sem þau ekki vissu var að ég vaknaði daginn eftir með hálsríg dauðans. Það var með herkjum að ég kæmist fram úr, hvað þá í fötin. En það var nú ekkert sem verkjalyf ekki gátu lagað. Kannski var það þess vegna sem ég gleymdi að syngja í miðju lagi á tónleikunum um kvöldi?
Í rigningu ég syng jólalög.
Athugasemdir
gott að vita af þér í sama landi, hlakka til að sjá þig á morgun ;)
hildur (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 17:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.