Erfitt?
10.4.2008 | 22:04
Nei, ekki svo. En erfið vika næstum að baki. Ég er búin að vera eitthvað þungur þessa viku. Líklega er það heimþráin sem slær mann svona niður. En góðu fréttirnar eru að hún skall ekki á fyrr en á viku tvö svo þetta skánar með hverri önn.
Ég hef verið að vinna í því að njóta en ekki hnjóta um smá hindranir. Og leyft mér að slaka á og prufa að gera mistök, sem virkar því nú eru mistökin miklu færri. Kannski er það bara viðhorfið, ég geri mistök en dvel ekki í þeim. Heldur skelli mér bara aftur á bak og slæ í klárinn.
Lífið er einfalt. Þetta er æfing sem við gerum í fimm mín. á dag. Þá fyllum við hugan af hugsuninni lífið er einfalt. Ef við hugsum hana nógu oft, þá fer hugurinn að trúa henni. Alveg eins og öllu öðru sem við fyllum hugann okkar af. Oftast er það raunar eitthvað neikvætt. En hvers vegna ekki eitthvað jákvætt, það tekur alveg jafn mikinn tíma? Þannig getum við ákveðið svolítið sjálf hvernig hugurinn á okkur virkar. Snjalt ekki satt? Svona voða mikið lærum við skólanum mínum.
Ein stelpan á fyrsta árinu er hætt í skólanum. Ég sakna hennar ekki,verð ég að segja. Hún fór alveg voðalega mikið í taugarnar á mér. Ég veit að ég á eftir að vinna með fólki sem mér ekki líkar og fólki sem líkar ekki við mig. Sem er reyndar ótrúlegt, ég náttúrulega yndi mikið. En kannski ekki í 12 tíma 6 daga vikunar. Hún var bara ekki tilbúin að sjá sínar hugsanir eða læra á þær. Farið hefur fé betra. Ég segi ykkur seinna frá því hví hún tók á taugarnar. En hún tók annsi mikið pláss í huga okkar hinna. Því við þurftum alltaf að fylla hugann af ég slakka á í hvert skipti sem hún hoppaði um, hló eins og skessa í hugleiðslu eða sýndi okkur nærfötin sín.
Á morgun kennir okkur líklega 100 ára gamli maðurinn í unglinga líkamanum. Það verður spennandi. Svo er líka hvers manns hugljúfinn og hommlingurinn með barnshöfuðið búin að kenna okkur nýjann sögulegann dans. Ég kann hann meira að segja. Þetta er svona enskur sveitadans. Hann get ég því dansað um sveitirnar hér í útlandi eins og innfæddur. Við steppuðum líka við ABBA í morgun við Waterloo nánar tiltekið, það get ég sýnt frændum vorum næst þegar mig langar í kjötbollur í IKEA. Kannski fæ ég bara frítt að borða, læt ykkur vita. Svo tipplaði ég á tánum í ballet. Ég er voða fær þegar við stöndum við rárnar og beygjum okkur og teygjum út tærnar. Enda með ballet fætur, eins og þið vitið. En flæki mig alltaf í eigin skrokk þegar við förum út á gólf. Ég þarf að nota þessi blessuðu vísindi til að finna út úr því. Kannski er það bara vegna þess að ég er 28 gamal karlmaður sem hefur aldrei dansað ballet áður. Gæti verið.
Í kvöld átti ég frí og eldaði mér japanska súpu úr dós og drakk hvítvín með. Ljúft, en súpa er ekki matur. Ég neyddist því til að poppa fulla skál af poppi í eftirrétt. Popp og hvítvín eiga einkar illa saman. En svona er stúdenta lífið. Maður neyðist til að borða popp með hvítvíninu.
Annars er æfingar um helgina. Og svo þarf að horfa á aðra sýningu af útskriftarverkinu sem er verið að setja upp núna. Það er alveg morðleiðinlegt, hjálpi mér allir tiltækir. Þannig ég verð að ákveða hvort ég eyði föstu- eða laugardagskvöldinu í það verkefni.
Lifið heil.
Athugasemdir
það er alltaf gott að vera jákvæður í öllusem við gerum þá gengur allt mikið betur. Eitt er víst við getum ekki spólað aftur á bak í lífinu reynum bara að gera hlutina vel í hvert sinn.
mamma (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 09:27
Mistök eru bara til að læra af þeim og við þurfum öll að gera þau. Ég er einmitt að reyna að temja mér þá hugsun að lífið er ekki erfitt það þarf bara að takast á við það sem að höndum ber. Takk aftur fyrir Skúla hann er rosa ánægður (fötin mín eru keypt í London)
Kv Ída og liðið
Ída (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.