Bjartsýnin við völd

Bara láta ykkur vita, ég er alveg að nenna þessu. Skólin gengur vel ég er að læra helling og verð betri Unnar Geir með hverjum degi. Ég er að kynnast sjálfum mér betur, sé hvað þarf að laga þó ég lagi það ekki allt einn tveir og bingó. Þá er ég meðvitaðri. Díses hvernig verð ég á þriðja ári? Vonandi ekki grenjandi gaddfreðinn fuglahræða...

En svo við höldum okkur niðri á jörðinni, þá er þetta bara allt í góðu núna. Það er margt sem hvílir á mér núna, eins sambandið okkar Hákons míns litla og svo framvegis. Þá er ég eftir allt að upplifa það sem ég þráði svo heitt svo lengi. Og hvað í veröldinni getur verið betra en það. Ég vona bara að fórnirnar verði þess virði að lokum.


Sunnudagur til sælu?

Í dag er sunnudagur og ég er útsofinn. Reyndar svaf ég út í gær líka, en tilfinningin er einhvern veginn betri á sunnudögum. Ég er að hugsa um að fara í göngu í dag. En við verðum að fara í náttúrugöngur og labba x-marga kílómetra á mánuði, til að hreinsa hugann. Allt í lagi, mér finnst gott að komast út í náttúruna og anda að mér fersku lofti. En vil gera það af því mig langar það en ekki af því ég þarf það.

Annars fór ég í leikhús í gær Smiling through, í Drill Hall leikhúsinu. Sama leikhúsinu og maðurinn hristi á sér rasskinnarnar, muniði? Hér voru allir í fötunum, en guð hvað þetta var lélegt. Verkið var valið besta homma og lesbíu leikverkið af sunday times 2003. Kannski var þetta eina verkið það ár ég veit ekki, eða það hefur elst svona hræðilega. En þetta var ekki gott leikhús. Sagan gerist í norður-írlandi og er fullt af breta, íra, norður-íra, kaþolika og mótmælanda gríni. Sem minn maður var ekki alltaf að skilja, en hálftómur salurinn fílaði vel. Sagan segir af harðri konu sem drekkur eins og íslenskur sjóari og er gift manni sem er meiri mús en maður, og 21. árs syni þeirra sem einn býr heima. Hann er hommi, hún neyðir hann til segja sér það(Því mömmurnar vita alltaf), hún vill að hann flytji út. Hann vill vera og læsir sig inn í herbergi og fer í hungurverkfall. Músin verður af manni og eiginmaðurinn flytur út. Hún drekkur og fer að sjá kandíska riddaralöggu birtast hér og þar. Þau syngja saman lög úr gömlum söngleikjamyndum.  Riddaralöggan (Sem er kona) er nokkurs konar góða álfkonan. Því hægt og rótt fer konan að sjá ljósið gegnum drykkjuskýið. Hún samþykkir son sinn, fyrir homman sem hann er og leyfir honum að vera. En þá ákveður hann að flytja til kærastans síns.

Jebb, ég hef séð betri leik í áhugaleikhúsunum heima á íslandi. Og þúsund sinnum betri leik í atvinnuleikhúsunum. Ég veit ekki alveg, með þetta leikhús. Það virðist vera hægt að setja hvað sem er upp á svið svo lengi sem einn eða fleiri í verkinu eru samkynhneigðir. Ég veit ekki alveg hvort það sé grundvöllur til að reka leikhús sem einungis sýnir samkynhneigð verk. Herbergisfélagar mínir hafa verið mikið í leikhúsunum og þeir töluðu um að næstum öll verkin sem þeir sáu snertu á málefnum samkynhneigðra á einn eða annan hátt. Leikhúsið fjallar alltaf um eitthvað sem máli skiptir, eða næstum alltaf. Ef þörf er á að ræða samkynhneigð þá gerir leikhúsið það, það er í eðli leikhúsins að tala um það sem okkur finnst erfitt að ræða dags daglega. Eða þarf alltaf að fjalla um það þegar einhver kemur út úr skápnum? Gerist ekkert eftir það? Er lifið dans á rósum eða glíma samkynhneigðir eða samkynhneigð pör við einhver vandamál? Hafa gagnkynhneigðir og samkynhneigðir sömu spurningarnar um lífið og tilveruna? Þetta er kannski eitthvað sem skemmtilegra væri að velta fyrir sér frekar en: Mamma, ég er hommi! ,endalaust.


Laugardagur til lukku

Gærdagurinn byrjaði ekki vel í gær. Ég fór inn á einkabankann til að millifæra og sá þá mér til skelfingar að ég átti aðeins 10,000 kr eftir til að lifa af mánuðinn. AAAAh! Hvað á ég að gera? Að vísu var visa-kortið mitt í plús, ég vissi ekki að það væri hægt. En það voru einhverjar dularfullar færslur á kortinu mínu, sem visa endurgreiddi. Svo í fyrsta skipti í heiminum var visa-kortið mitt með inneign, skrítið. En lítil huggun í visa því debet var næstum tómt. Ég sá fyrir mér að myndi lifa á vörum úr 99 búðinni. En Bragi bekkjarfélagi minn verslar mikið þar. Einn daginn var það niðursoðið spaghetti í tómatsósu en núna eru það aðallega muffins-kökur. Það niðursoðna var að vísu svo vont að hann borðaði það með nasirnar stíflaðar með snýtubréfum. Einhvern veginn langaði mig ekki að sigla þann sjó er Bragi valdi. En þegar neyðinn er mest er hjálpin næst.

Kaupfélag Héraðsbúa ákvað sem sagt að veita mér smá styrk, sem gerir mér kleyft að lifa af þennan mánuð. Með þeirri reisn sem fátækur námsmaður á skilið. Lifi K.H.B!

 


Bloggfærslur 11. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband