Sunnudagur til sælu?

Í dag er sunnudagur og ég er útsofinn. Reyndar svaf ég út í gær líka, en tilfinningin er einhvern veginn betri á sunnudögum. Ég er að hugsa um að fara í göngu í dag. En við verðum að fara í náttúrugöngur og labba x-marga kílómetra á mánuði, til að hreinsa hugann. Allt í lagi, mér finnst gott að komast út í náttúruna og anda að mér fersku lofti. En vil gera það af því mig langar það en ekki af því ég þarf það.

Annars fór ég í leikhús í gær Smiling through, í Drill Hall leikhúsinu. Sama leikhúsinu og maðurinn hristi á sér rasskinnarnar, muniði? Hér voru allir í fötunum, en guð hvað þetta var lélegt. Verkið var valið besta homma og lesbíu leikverkið af sunday times 2003. Kannski var þetta eina verkið það ár ég veit ekki, eða það hefur elst svona hræðilega. En þetta var ekki gott leikhús. Sagan gerist í norður-írlandi og er fullt af breta, íra, norður-íra, kaþolika og mótmælanda gríni. Sem minn maður var ekki alltaf að skilja, en hálftómur salurinn fílaði vel. Sagan segir af harðri konu sem drekkur eins og íslenskur sjóari og er gift manni sem er meiri mús en maður, og 21. árs syni þeirra sem einn býr heima. Hann er hommi, hún neyðir hann til segja sér það(Því mömmurnar vita alltaf), hún vill að hann flytji út. Hann vill vera og læsir sig inn í herbergi og fer í hungurverkfall. Músin verður af manni og eiginmaðurinn flytur út. Hún drekkur og fer að sjá kandíska riddaralöggu birtast hér og þar. Þau syngja saman lög úr gömlum söngleikjamyndum.  Riddaralöggan (Sem er kona) er nokkurs konar góða álfkonan. Því hægt og rótt fer konan að sjá ljósið gegnum drykkjuskýið. Hún samþykkir son sinn, fyrir homman sem hann er og leyfir honum að vera. En þá ákveður hann að flytja til kærastans síns.

Jebb, ég hef séð betri leik í áhugaleikhúsunum heima á íslandi. Og þúsund sinnum betri leik í atvinnuleikhúsunum. Ég veit ekki alveg, með þetta leikhús. Það virðist vera hægt að setja hvað sem er upp á svið svo lengi sem einn eða fleiri í verkinu eru samkynhneigðir. Ég veit ekki alveg hvort það sé grundvöllur til að reka leikhús sem einungis sýnir samkynhneigð verk. Herbergisfélagar mínir hafa verið mikið í leikhúsunum og þeir töluðu um að næstum öll verkin sem þeir sáu snertu á málefnum samkynhneigðra á einn eða annan hátt. Leikhúsið fjallar alltaf um eitthvað sem máli skiptir, eða næstum alltaf. Ef þörf er á að ræða samkynhneigð þá gerir leikhúsið það, það er í eðli leikhúsins að tala um það sem okkur finnst erfitt að ræða dags daglega. Eða þarf alltaf að fjalla um það þegar einhver kemur út úr skápnum? Gerist ekkert eftir það? Er lifið dans á rósum eða glíma samkynhneigðir eða samkynhneigð pör við einhver vandamál? Hafa gagnkynhneigðir og samkynhneigðir sömu spurningarnar um lífið og tilveruna? Þetta er kannski eitthvað sem skemmtilegra væri að velta fyrir sér frekar en: Mamma, ég er hommi! ,endalaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.