Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Próf lok

Jæja, þá er blessaður prófdagurinn að baki, guði sé lof fyrir það. Það gekk bara vel og voru kennarnir mjög ánægðir með uppskeru annarinnar. Ég er líka mjög glaður með þessa önn, það hefur gengið vel. Og ég finn fyrir miklum framförum, andlega, líkamlega og leiklistarlega séð.  En þetta er hörkupúl. Þegar við Chris komum heim um níu á föstudagkvöldinu, vorum við svo þreyttir að við gátum varla talað. Greyið Roy varð að ráða í handa- og augnhreyfingar til að skilja okkur.

Ég vaknaði um daginn allur blár á höndum og fótum. Ég hélt fyrst að kannski væri ég með einhvern æðasjúkdóm. En svo reyndist ekki vera, heldur voru fínu regnbogabúðar rúmfötin ástæðan. Þau sem sagt lita frá sér. Ég fór þá að sofa í sokkum sem alltaf lituðust bláir en verra var með hendurnar, ekki gat ég sofið í vettlingum. Ég sá mig því tilneyddan að kaupa ný rúmföt. Þau kostuðu það sama og allur hellingurinn sem ég  keypti í regnbogabúðinni. En vonandi vakna ég húðlitaður í fyrramálið.

Annars er innidagur í dag. Við fórum í bæjarferð í gær, strákarnir á Moray Road 16c. Kíkktum í búðir, það er mjög skilvirkt að versla með gagnkynhneigðum karlmönnum. Þeir segja bara nei, þetta er ljótt eða þessir skór láta fæturna á þér líta út eins og þú sért með trúðsfætur. Bara beint út. Stundum hlusta ég nú ekkert á þá, þeir eru nú gagnkynhneigðir eftir allt saman. Við kíkktum á listasýningu, okkur Chris fannst salurinn svo flottur að við fórum að dansa. Roy skoðaði bara myndirnar, hann sko skápalistamaður. Loks enduðum við daginn á japönskum stað í kínahverfinu, já þeir eru ruglaðir þessi japanar. Ég fékk það besta sushi sem ég hef fengið, fullur bakki af gæða fæðu fyrir litlar þúsund krónur. Alveg hreint ljómandi dagur, sem endaði svo á djammi með ISH-drengjunum.

Aftur að skólanum. Þó svo að mikil vinna sé fyrir höndum, þá finnst mér samt að ég sé komin yfir erfiðasta hjallann. Ég er komin til að vera, hættur að efast um allt og alla og hef einsett mér að lggja mig allann fram, þora gera mistök, gera tilraunir og alltaf gera mitt allra besta. Ég hef núna fjögur ár til að undirbúa restina af mínu lífi og þau skulu notuð til hins ýtrasta.


Enn lasinn

Ég er enn veikur, var að skríða fram úr til að nærast, núna rétt um klukkan tvö. Búin að vera frá skóla í tvo daga og ég er með þvílíkt samviskubit. Ég fór samt á æfingu í gærkvöldi. Lá á gólfinu þar til það kom að mér og þá gerði ég mitt, lagðist svo aftur niður. Man ekki alveg hvað við vorum að æfa en minnir ekki að neinu hafi verið breytt, þannig ég geri bara það sama og síðast þegar við sýnum. Seinna í dag eru fleiri æfingar, sem er verra því þar er ég með texta. Minn verður bara að vera hægur í hreyfingum og dimmraddaður. Ég held að ekki einu sinni leiklistarvísindin geti unnið á flensu. En nóg af sjálfsvorkunn. Áfram með smjörið, forwards with the butter.

Um daginn langaði mig svo svakalega í kalda blóðmör og rófustöppu, eitthvað sem ég er nú ekkert sérstaklega spenntur yfir. Kannski er ég óléttur?


Lasinn

Í dag sagði kroppurinn stopp. Ég hlýddi með glöðu geði. Við vorum að sýna til hálf tólf í gærkvöldi og í morgun var ég bara slappur. Allavega ekki í neinu formi fyrir kollhnísa og handahlaup. Svo mikið er víst. Eg verð í fjórum sýningum í prófinu og næstu dagar verða annsi strangir þvi nú verður æft öll kvöld fram á föstudag. Þannig ef ég ætla að leika af einhverju viti verð ég að safna orku í dag.

Það gekk samt vel í gær. Bæði í skólanum og að sýna. Fulli írinn, þessi 65 ára sem reyndar er 17 ára núna, ameríski hermaðurinn og fúli liverpoolarinn komust allir í prófið. Gaman af því. Ég komst svo að því að ef ég tala í 3 svæði sem er harði gómurinn lagast hreimurinn hjá mér um heilan helling. Málið er nefnilega að hreimurinn er annsi sterkur hjá mér. Fólk spyr alltaf hvaðan ég er þegar ég fer eitthvað að tjá mig. Leikhús enskan er töluð í svæði eitt sem fyrir framan framtennurnar í efri gómi, íslenska er í svæði 2-3 aftan frá framtönnum að harðgómi. En hausinn á mér er þannig hannaður að þegar ég tala í svæði 3 hljómar það eins og ég tali í svæði 1. Ég verð bara að gæta að framburðinu og nota varirnar. Þá tala ég hreina drottningar ensku. Þannig að áður en ég tala styng ég tungunni upp í harðgóminn miðjan hljóma ég næstum sem englendingur, nema þegar ég gleymi að taka tunguna niður. Þá hljóma ég eins og maður nýkominn frá tannlækni eða það sem er enn verra eins og dani.

En nú er Roy mættur með brauðið svo nú er tími fyrir te og rist.


Stund milli stríða

Það gekk vel að sýna í gær og gekk ég glaður heim á leið um níu leytið í gærkvöldi. Það var nú laugardagskvöld svo ég skellti mér á djamið með ISH drengjunum. Maður verður nú að lifa lífinu, það kenna þau okkur í skólanum. Mikið stuð og mikið gaman. Ég klæddi mig í áramóta skyrtuna mína, en hún hefur alltaf gefið vel. En þarna hitti skrattinn ömmu sína, því drengur klæddur eins skyrtu birtist allt í einu við hliðina mér. Hæ, segir hann, flott skyrta, já takk hehe segi ég. Heyrðu , segir hann, vinir mínir segja að fyrst við erum í eins skyrtu verði þér að taka mynd af okkur saman. Allt í lagi, segi ég. Skondið og skemmtilegt. Stuttu seinna kemur drengurinn aftur og segir að núna segi vinirnir að nú ættum við að kyssast fyrst við erum í eins skyrtu.  Já... ókei, nei nei, takk samt segi ég. Skrítið og skemmtilegt. En annsi var ég þreyttur í morgun. Mætti klukkan tíu á æfingu, þrif frá klukkan ellefu til fjögur. Þá tóku við frekari æfingar til sjö, og nú er ég í pásu til hálf níu. Kem svo heim um eitt í nótt, fleygi mér í bælið, ligg þar sex tíma og mæti svo í jóga í fyrramálið. Þetta er orðið eins slæmt og það var þegar það var sem verst á síðustu önn. En, hugurinn allt annar. Ég sótti um þennan skóla, borgaði fyrir hann og samþykkti þær reglur sem hann setti mér.  Svona er þessi skóli og verður svona næstu þrjú árin. Ekkert við því að gera nema njóta og læra. Og ég er að læra svo mikið, maður minn lifandi. Um mig, lífið og listina. Ég er með fulla tösku af verkfærum til að takast á við handiðnina leiklist. Það er bara harkan sem dugar, lífið er einfalt.

Verð að þjóta, í kvöld er ég amerískur hermaður, fullur íri og bak við tjöldin maður að sprauta blóði yfir kónginn í macbeth. Gaman af þessu.


Ek lifi enn

Sæl nú,

Bara láta vita að ég er hér enn í einum bita. Var að koma heim núna rétt fyrir eitt úr skólanum eftir að hafa mætt eldhress í jóga kl 8:30. Dagurinn var fínn svo sem við kvöddum bitra ballroom hommalinginn, en hann er allur að þiðna greyið. Hann kennir okkur ekki mér þessa önn, blendnar tilfinningar en flestar jákvæðar verð ég þó að segja. Í gær var ekki þverfótað fyrir grenjandi leikstjórum uum alla ganga. Sem gerði allan frágang, og umgang almennt, annsi flókinn. Því ekki vill maður trufla fólk í tómu volaði og sjálfsvorkunn.  Annar lok nálgast og stressið farið að segja til sín. En ég er hress enda bara fyrsta árs leikara nemi. Á morgun eru æfingar og sýningar og á sunnudaginn þrifum við svo skólann. Einmitt það sem þú ert að hugsa, en sniðugt. Nemendurnir kom á sunnudegi og þrífa skólann. Þa er venjulegt. Nei, það er það ekki. En ég mæti engu að síður hress og skila mínu með sóma og hana nú. Á sýningunum leik einn 17 ára, einn 35 ára, einn 65 ára, einn 32 ára og að lokum einn 40 ára, þannig e-ð verð ég ruglaður í tíma og rúmi annað kvöld.

Ég var að raka á mér höfuðið áðan. Gekk bara vel en það væri gott að geta tekið af sér eyrun svona rétt á meðan maður er að fara yfir þetta. Sem minnir mig á klippikonu sögu. Hún var að klippa konu og eyrun á henni voru e-ð fyrir. Svo konan bara tók af sér eyrað. Já það held ég nú. Hún var af ríkum ættum og hafði verið rænt (Sko, konan ekki klippikonan) og eyrað af henni sent sem sönnun um að ræningjanir hefðu hana undir höndum. Skrítin þessi veröld, ekki satt?

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband