Save or not to save? Save iceland?

Sumu fólki er bara ekki viðbjargandi...

Hvernig dettur manninum að gera svona, þegar tveir þriðju kjósanda skrifa ekki undir hvatningu til forseta um að hafna lögunum. Tveir þriðju kjósanda skrifa ekki undir og alþingi samþykkti lögin. Hvers konar lýðræði er þetta? Til hvers að hafa alþingi? Eigum við ekki bara að kosta til 106 milljónum í hvert sinn sem ákvörðun þarf að taka og Jón og Gunna sem hafa kynnt sér málin í hlutlausri umfjöllun Moggans og Fréttablaðsins kjósa? Væri það ekki fínt fyrir jarðvöðlana sem umm allt ryðjast argandi og gargandi sem galtómar górillur með rakettur í sitjandanum?

Að fylgjast með alþingi að störfum milli jóla og nýárs var nú ekki til að auka virðingu þess meðal kjósanda. Þarna gjammaði fólk fram í fyrir hvort öðru eða jós svívirðingum yfir hvort annað utan og innan ræðustóls svo ítrekað varð að biðja fólk um að haga sér. Og þetta er fólkið sem á að stjórna landinu? Engin furða að Færeyingar og Grænlendingar vilji ekki sjálfstæði þegar þeir sjá hvernig stóri frændi fer með það.

Nokkuð er ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson verður ekki forseti fleiri kjörtímabil og framtíð forseta embættisins er mjög óljós. Ég held að fígúru leikurinn sé genginn nógu langt.

Frá með Forsetann!

 


Allt á fullu

Þá er allt komið á fullt, ég er samt ekki byrjaður að bóka neinar æfingar né eru aðrir byrjaðir að bóka mig. En samt er þetta ótrúlega fljótt að komast í rútínuna. Ég er aðeins að breyta hjá mér mynstrinu, fara fyrr að sofa og vakna fyrr. Mér finnst gott að eiga morgnana fyrir mig, taka tíma í að vakna og byrja daginn rólega. Þá er ekki eins og skólinn sé það eina sem maður gerir á daginn.

Mikið vona ég nú að hann Ólafur Ragnar það er að segja Grímsson skrifi undir í dag. Skil ekki allt þetta drama. Þingið hefur nú í tví- ef ekki í þrígang samþykkt að ganga við þessari ábyrgð. Þó sagt verði nei verður bara samið á ný og ég efast stórlega að við náum nokkuð betri samingum. 

Annars er lífið hér bara eins og venjulega, ég er allur lurkum laminn efir fimleikana í gær. Frábært að hafa fimleika á fyrsta mánudegi eftir eftir jólafrí! En ég er hress búin að ná pestinni úr mér, en missti samt fimm kíló yfir jólin, geri aðrir betur. Mæli samt ekki með magavírus í fimm vikur, ekki góður kúr.

 


Nýtt ár

Jæja,

Þá hefst stríðið. En nú eru aðeins sex mánuðir með öllum fríum samanlagt eftir af erfiðasta pakkanum. Þá tekur við sumarönnin og þá leikstjórnar árið sem líklega endar í mars 2011. Og þá er þetta búið, eða réttara sagt þá fer þetta að gerast.

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs árs og friðar með kærum þökkum fyrir samfygldina á árinu sem er að líða.


Aðalheiður

Í dag er Aðalheiður litla systir hálf þrítug. Til hamingju með daginn litla skott. Eins á Bára klára vinkona afmæli í dag, til lukku gæska.

 sn151957_946683.jpg


..sömuleiðis

Þetta árið skar ég odd af oflæti mínu og sendi nánustu ættingju og vinum jólakort. En í ár ákvað ég að stela hugmynd sem Hildur sagði mér frá, sem sagt að endursenda bara kortin frá því í fyrra og skrifa bara sömuleiðis á þau. Þetta fannst mér ótrúlega sniðugt, en þar sem ég var ekki með kortin á landinu sendi ég bara ný kort til allra. Og skrifaði:

Jólin ´09

Elsku fjölskylda,

...sömuleiðis.

Jólakveðja,

Unnar Geir

Þetta fannst mér ótrúlega fyndið, ég vona að viðtakendur kortanna hafi ekki farið að misskilja þetta grín. Það verður þá bara að koma í ljós næstu jól.

Njótið hátíðarinnar.


Aðfangadagur

Jæja,

Þá er ég komin austur gekk allt vel og hér allt hvítt af jólasnjó og kornin falla enn.

Gleðileg jól.

Sel�s 16

Selás 16, jólahús númer 1.


Flög

Jæja, spurning hvort mér takist að komast austur í dag. Ég mæti nefnilega út á völl í gær og ætlaði fljúga austur en þá var miðinn minn dagsettur 23 des ekki 22 eins og ég var búin að ákveða. Ég misskildi sjálfan mig jafn vel úti en þá vaknaði ég við vondan draum á þriðjudagsmorguninn. Hann var nefnilega sá 15 en ekki miðvikudagurinn eins og ég var svo aldeilis búin að ákveða. Ég komst nú samt heim til heim svo vonandi gengur þetta upp í dag einnig.

Veit samt ekki með þessa magapest, batinn er hægur og ég búin að missa 4 kíló á þremur vikum. Spurning um að fara selja þetta sem kúr fyrir fitubollur. Ég veit samt ekki hvað ég geri nú þegar ein mesta átveisla ársins gengur í garð og maginn á mér skroppinn saman í lítið sem ekkert. Kannski ég prófi að gleypa körfubolta til að auka rýmið. Annars sit ég bara hér í Garðabænum í einu mesta kulda kasti sem elstu menn muna. Kastið er sem sagt fyrir utan ég er ekki sitjandi í því. 

Bara leti hjá mér í dag, enda gerði ég allt í gær því ég var á leiðinni austur.

Ég hlakka til að komast í snjóinn, gleðileg jól.


Úff

Jæja,

Eitt erfiðista prófið hingað til að baki. Fyrir utann að aldei fyrr hafa svo mörg verk verið í prófinu var ég í engu standi til að gera nokkur skapaðan hlut. Ég veikist nefnilega af magavírus á fimmtudeginum og eyddi mest öllum föstudeginum inn á baðhergi. Nema að ég þurfti að mæta á æfingu á föstudagskvöldið hafandi ekkert getað borðað allan daginn, ég hélt mér gangandi á flötu kóki. Á laugardaginn var loka rennsli og svo sýndum við prófverkinn. Ég náði öðru verkinu mínu inn Chekhov-æfingunni Jubilee eða Afmælið, sýningin gekk vel og fékk góða dóma. Ég varð samt að halla mér að veggnum svo ég ylti ekki um koll þegar kennarnir voru að dæma verkið. Öllu erfiðara var að leika í þeim þremur verkum sem ég var í en ég held að ég hafi samt alveg skilað mínu. Ég gat borðað aðeins á laugardagskvöldinu og hef borðað smá í dag þannig þetta er allt að koma.

Í dag lék ég svo jólasvein á íslendinga jólaballi. Það var mikil gleði og gaman að fá íslenska jólastemningu í kroppinn.

Nú er bara vika eftir og svo flýg ég heim 15 des. Mikið verður gott að komast heim, vonandi að snjóa haldi.

 


Aðventan

Aðventan skollin á og allt á fullu nú sem endranær. Ég var í skólanum frá hálf tíu í gærmorgun til hálf tólf í nótt og var svo mættur aftur klukkan eitt í dag til að þrífa. Við þrifum til hálf sex og byrjuðum svo að æfa frá sex til átta. Ég veit að margir vinna meir en ég og erfiðari vinnu en mikið skrambi er ég nú þreyttur. En hvað með það ég er búin að skreytta hér heima og er að hlusta á jólalög, lífið er ljúft.

Næsta laugardag er prófið mikla og daginn eftir leik ég jólasvein á jólaballi íslendinga félagsins.

Þannig nú er málið að fara snemma í bólið meðan það er hægt og drullast til að standa sig, það held ég nú.

Gleðilega aðventu.


Lífið er einfalt

Við þurfum ekki öll að gera sömu mistökin, en við lærum samt svo helv... mikið af þeim. En auðvita er vert að taka mið af þeim sem fyrir okkur fara.

Hin 90 ára gamla Regina Brett frá Ohio skrifaði þessi 45 atriði um það sem lífið hafði kennt henni: 

1.     Lífið er ekki sanngjarnt, en það er samt ljúft

2.     Þegar þú ert í vafa, taktu þá bara lítið skref

3.     Lífið er of stutt til að eyða tíma í að hata einhvern

4.     Vinnan þín mun ekki sjá um þig þegar þú verður veik(ur). Vinir þínir og fjölskylda munu gera það. Vertu því í sambandi við þau.

5.     Greiddu kreditkortareikninginn þinn í hverjum mánuði

6.     Þú þarft ekki að vinna öll deilumál – samþykktu að vera ósammála

7.     Gráttu með einhverjum. Það er betra en að gráta einn

8.     Það er allt í lagi að reiðast út í guð.- - - Hann þolir það

9.     Safnaðu fyrir elliárunum og byrjaðu með fyrsta launaseðlinum

10.  Þegar kemur að súkkulaði, þá er mótstaða árangurslaus

11.  Semdu frið um fortíðina, þannig að hún eyðileggi ekki samtíðina

12.  Það er í lagi að láta börnin þín sjá þig gráta

13.  Berðu ekki þitt líf saman við annarra. Þú hefur ekki hugmynd um hvernig þeirra líf er

14.  Ef samband þarf að vera leynilegt, þá áttu ekki að vera í því

15.  Allt getur breyst á augabragði. En hafðu ekki áhyggjur

16.  Dragðu andann djúpt að þér – það róar hugann

17.  Losaðu þig við allt sem ekki er nýtilegt, fallegt eða skemmtilegt

18.  Það sem ekki drepur þig gerir þig bara sterkari

19.  Það er aldrei of seint að hafa skemmtilega barnæsku. En sú seinni er alveg undir þér komin og engum öðrum

20.  Þegar kemur að því að sækjast eftir því sem þú elskar við lífið, taktu þá aldrei Nei sem svar

21.  Brenndu kertin, notaðu fínu rúmfötin, farðu í fínu nærfötin. - - - Sparaðu þetta ekki fyrir sérstök tilefni – Í dag er sérstakt tilefni

22.  Undirbúðu þig ávallt vel – láttu svo strauminn taka þig

23.  Vertu óvenjuleg(ur) í dag - - - Bíddu ekki eftir gamals aldri til að klæða þig í fjólubláan lit !

24.  Mundu að mest áríðandi kynfærið er heilinn

25.  Enginn ræður yfir hamingju þinni nema þú

26.  Rammaðu inn allar svokallaðar þjáningar með orðunum . . . . „Mun þetta skipta einhverju máli eftir 5 ár“ ?

27.  Hafðu lífið alltaf að leiðarljósi

28.  Fyrirgefðu öðrum allt

29.  Það sem aðrir hugsa um þig kemur þér alls ekki vð

30.  Tíminn læknar svo til allt. . . . Gefðu tímanum tíma

31.  Hversu gott eða slæmt sem ástandið er,. . . þá mun það breytast

32.  Taktu þig ekki of hátíðlega, . . . enginn annar gerir það

33.  Trúðu á kraftaverk

34.  Guð elskar þig vegna þess hver hann er, ekki vegna þess sem þú gerðir eða gerðir ekki

35.  Endurskoðaðu ekki lífið, . . Vertu til staðar og taktu þátt í því

36.  Að verða gamall er betra en hinn kosturinn - - - að deyja ungur

37.  Börnin þín fá bara eina barnæsku

38.  Allt sem skiptir máli í lokin er að þú hafir elskað

39.  Farðu út á hverjum degi , - - kraftaverk bíða alls staðar

40.  Ef við myndum öll kasta áhyggjum okkar í stafla og sæjum stafla hinna, . . þá myndum við hrifsa okkar til baka

41.  Öfund er tímasóun.- - - Þú hefur nú þegar allt sem þú þarfnast

42.  Það besta er ef til vill einnig ókomið

43.  Það skiptir ekki máli hvernig þér líður, - - - farðu á fætur, klæddu þig og sýndu þig.

44.  Láttu undan

45.  Lífið er ekki skreytt með slaufum, - - en samt er það gjöf


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband